Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir mennta- og barnamálaráðuneytisins

Synjun um rétt til að nota starfsheitið kennari

Þriðjudaginn 24. janúar 2023, var kveðinn upp í mennta- og barnamálaráðuneytinu svofelldur

ÚRSKURÐUR

í stjórnsýslumáli nr. MRN22120052

I.

Kæra, kröfur og kæruheimild

Mennta- og barnamálaráðuneytinu barst hinn 8. desember 2022, stjórnsýslukæra A (hér eftir nefndur „kærandi“), dags. 8. desember 2022, vegna ákvörðunar Menntamálastofnunar, dags. 6. desember 2022, um að synja kæranda um rétt til að nota starfsheitið kennari samkvæmt 4. og 9. gr. laga um menntun, hæfni og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla, nr. 95/2019. 

Af kærunni verður ráðið að kærandi krefjist þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og Menntamálastofnun verði gert skylt að gefa út leyfisbréf honum til handa.

Ákvörðun Menntamálastofnunar er kærð á grundvelli 4. mgr. 10. gr. laga, nr. 95/2019 og barst kæra innan kærufrests.

II.

Málsatvik

Samkvæmt gögnum málsins hefur kærandi starfað við kennslu í fimmtán ár. Hann lauk 116 af 120 einingum til Bachelor prófs við háskólann B á árunum 2007 til 2011. Í kæru kemur fram sú afstaða hans að menntun hans og hæfni eigi að leiða til þess að hann fái útgefið leyfi til að nota starfsheitið kennari hér á landi samkvæmt lögum nr. 95/2019 um menntun, hæfni og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla.

III.

Málsmeðferð

Stjórnsýslukæran barst mennta- og barnamálaráðuneyti 8. desember 2022. Samkvæmt beiðni ráðuneytisins bárust gögn málsins og umsögn Menntamálastofnunar þann 12. desember 2022. Kæranda var gefinn kostur á að bregðast við umsögn Menntamálastofnunar og bárust viðbótargögn frá kæranda þann 16. desember 2022.

IV.

Málsástæður

Í stjórnsýslukæru vísar kærandi til náms síns og margra ára starfsreynslu við kennslu. Þá kemur fram sú afstaða hans að hann hafi lokið 116 af þeim 120 námseiningum sem hann telur að einstaklingar þurfi að ljúka til að fá útgefið leyfisbréf.

V.

Rökstuðningur niðurstöðu

Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laga um menntun, hæfni og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla, nr. 95/2019, hefur sá einn rétt til að nota starfsheitið kennari og starfa við leik-, grunn- eða framhaldsskóla á vegum opinberra aðila eða aðra hliðstæða skóla sem til þess hefur leyfisbréf.

Til að öðlast leyfisbréf samkvæmt lögunum þarf umsækjandi annars vegar að búa yfir almennri hæfni samkvæmt 4. gr. laganna, sbr. 2. mgr. 9. gr. sömu laga sem felur í sér að umsækjandi skuli hafa lokið að lágmarki 60 námseiningum í uppeldis- og kennslufræði. Hins vegar þarf umsækjandi að hafa yfir að ráða sérhæfðri hæfni samkvæmt 5. gr. laganna. Þegar um er að ræða sérhæfingu á leikskólastigi eða grunnskólastigi eða í list- og bóknámsgreinum á framhaldsskólastigi þarf umsækjandi annaðhvort að hafa lokið 120 námseininga meistaraprófi af stigi 2.1 eða 2.2 samkvæmt viðmiðum um æðri menntun og prófgráður frá háskóla sem hlotið hefur viðurkenningu ráðherra á grundvelli laga um háskóla á fræðasviði sem ráðherra viðurkennir til kennslu á leik-, grunn- eða framhaldsskólastigi, sbr. a-lið 3. mgr. 9. gr., eða öðru námi sem jafngildir meistaraprófi og ráðherra viðurkennir til kennslu á leik-, grunn- eða framhaldsskólastigi, sbr. b-lið 3. mgr. 9. gr. laga nr. 95/2019.

Af gögnum málsins verður ráðið að umsókn kæranda um rétt til að nota starfsheitið kennari sé byggð á því að menntun hans uppfylli skilyrði 3. mgr. 9. gr. laga nr. 95/2019 um sérhæfða hæfni. Í umsögn Menntamálastofnunar til ráðuneytisins, dags. 12. desember 2022, kemur fram að stofnunin hafi aflað upplýsinga frá ENIC/NARIC skrifstofunni á Íslandi sem sérhæfir sig í því að meta með áreiðanlegum hætti nám og prófgráður. Samkvæmt umsóknargögnum hefur kærandi lokið 116 af 120 einingum til Bachelor prófs við háskólann B. B er viðurkenndur sem háskóli af menntamálayfirvöldum í C. Nám til Bachelor prófs tekur fjögur ár við skólann. Að mati ENIC/NARIC skrifstofunnar getur Bachelor próf frá B talist sambærilegt bakkalárprófum frá íslenskum háskólum á þrepi 5.2 í hæfniramma um íslenska menntun (ISQF). Þessar 116 einingar geta talist sambærilegar 172 ECTS einingum.

Samkvæmt framansögðu hefur kærandi lokið námseiningum til bakkalárprófs en hvorki námseiningum til meistaraprófs né námi sem jafngildir meistaraprófi, eins og áskilið er skv. a- og b-lið 3. mgr. 9. gr. laga nr. 95/2019. Vegna athugasemda kæranda er tekið fram að ekki er gert ráð fyrir því að unnt sé að uppfylla skilyrði 3. mgr. 9. gr. laganna með vísan til kennslureynslu. Kærandi uppfyllir því ekki þær kröfur sem gerðar eru til menntunar og hæfni kennara samkvæmt lögum nr. 95/2019 til að vera veittur réttur til að nota starfsheitið kennari.

Hin kærða ákvörðun Menntamálastofnunar er staðfest.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun Menntamálastofnunar um að synja umsókn kæranda um útgáfu leyfisbréfs er staðfest.

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum